Ferðasaga
Sannsöguleg frásögn af hryssingslegu hristiferðalagi 10. Ágúst 2019  MHM
 
Lagt var af stað frá Mjóddinni stundvíslega kl. 9,00 eins og oft áður. Fararstjórinn var okkar dáði Þórarinn og bílstjórinn var hávaxinn, alvörugefinn og vandaður maður, enda kom það sér vel þegar aðstæður á hálendinu fóru versnandi, en rútan var frá Akureyri af eldri og þroskaðri gerð.

Fyrsta klósett og sælgætisstopp var hjá N-1, Hveragerði og hepnaðist vel, enda farþegar orðnir reyndir í svoleiðis stoppum. Hveragerði er þekkt jarðgufuþorp, þar sem hægt er að fá ís og blóm.

Var nú ekið á jöfnum og góðum hraða alla leið til Gullfossar ( eins og börnin segja ). Var ekið viðstöðulaust fram hjá Geysi, þrátt fyrir að fyrir lægi skriflegt loforð stjórnar um stopp þar.

Klósettin á Gullfossi voru nýmóðins sjálfvirk peningaplokkara klósett, sem þóttust m.a. geta tekið við greiðslu frá kreditkortum útgefnum af þekktum bankastofnunum í Reykjavík. En að sjálfsöðu virkaði þessi tæknibúnaður ekki. Sumir svindluðu sér, stukku yfir eða skriðu undir slánna, en aðrir bölvuðu í hljóði og fóru bara út og pissuðu undir vegg. En því miður geta konur það ekki, nema skipta um kyn fyrst.

Síðan var smá næring innbyrt utanhúss, sitjandi á hefðbundnum sambyggðum tré borðum og sætum upp á náð og miskunn veðurstofunnar, sem öllu ræður.

Heiða bauð upp á blandaða heilsurétti, eins og oft áður. Fannst undirrituðum apríkósurnar hennar lang girnilegastar.

Hófst nú leit að rútunni okkar, sem var hvít, innan um 100 hvítar rútur á bílastæðinu. Það tókst alveg ótrúlega vel að finna hana enda var hún merkt Akureyri, en það er lítið og dúllulegt fiskiþorp á norðurlandi í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar ( Þið megið ekki segja þetta neinum ).

Var nú stefnan tekin á Kerlingafjöll, og gékk allt vel þar til rútan flengdist fram af malbikaða stökkpallinum, þar sem þjóðvegakerfi landsins endaði og siðmenningunni lauk. Þarna byrjaði hristings helförin til Kerlingafjalla. Var það svakalega tryllingsleg gandreið í boði Vegagerðarinnar og eru margir sárir eftir þá för svo sem slitin/teygð liðbönd, hryggilegir hryggáverkar og aumar axlir. En eins og margir vita þá fást ekki lambahryggir í verslunum, nema með sérstöku leyfi Kaupfélags Skagfirðinga. Af hverju þetta tengist þessu máli veit ég ekki.

Engin leið er að lýsa þeim hryllingi, sem beið okkar á hristivegum Vegagerðarinnar. Hvernig Vegagerðin fer að því að hrista vegina svona , veit engin. Ef til vill nota þeir risastór tröll úr þjóðsögunum. Fólk með gervitennur átti á hættu að missa þær út úr sér í annarri hverri holu.

Stoppað var við grjótvörðu allstóra og henti fólk litlum steinum í hana og þar sem um 40 ókyngreindir aðilar voru í rútunni og ef við gefum okkur að hver hafi bætt í vörðuna steini upp á ca. 250 gr. Þá hafa 10 kg bæst í vörðuna af okkar völdum og kallast það grjótspor okkar. Undirritaður var svo snjall að henda 100 kr. pening í vörðuna í stað grjóts og býst sterklega við 50-100 % ávöxtun á þessari grjótvörðumynt, sem mun örugglega slá Bitcoin við innan tíðar.

Var nú rútan látin hristast áfram á fullri ferð og ætt framhjá Hvítárnesi, þrátt fyrir loforð stjórnar félagsins um stopp þar. Það er greinilegt að orð stjórnarinnar eru marklaust blaður.

Er nú farið að kalla stjórnina Trump stjórnina, og finnst mér það nú ekki maklegt gagnvart Trump greyinu, sem alltaf er að reyna að bæta heiminn.

Á leiðinni inn í Kerlingafjöll var stoppað á miðjum þjóðveginum og sett upp örklósett eða svokallað skammtíma klósett við afturenda rútunnar  ( mjög viðeigandi ). Þetta er bara hægt að gera á fáförnum vegum, en alls ekki í miðri borg. Þetta getur komið sér virkilega vel á vegum um eyðimerkur, alla vega þangað til úlfaldarnir renna á lyktina. Þarna sáum við erlent hjólreiðapar á ferð, og eftir ca. 2 klukkustunda dvöl  í Kerlingafjöllum sáum við þetta par hjóla inn á svæðið, kulnuð og þreytuleg ( útihiti um 3°C ), en ótrúlegt afrek var þetta hjá þeim.

Þegar við komum til Kerlingafjalla eftir svona 3 klst samfelldan hristing, var fyrsta verkefnið að borða nestið okkar. Var okkur úthlutað kofa ræksni, sem kallaðist Græniskúrinn. Hann var í felulitum, því að hann var í raun svartur á lit. Og var okkur sagt að borga 400 kr. á mann fyrir aðstöðu þar í 40 mínútur. Hrefna gjaldkeri fussaði og sveiaði og sagði að aldrei myndi hún borga slíka ofurleigu. Svipurinn á henni var eins og úr bíómynd, þar sem einhver segir „ over my dead body „. Hvort hún komst upp með það veit ég ekki.

Síðan voru fastir liðir eins venjulega. Aldursforsetinn Jósep bauð upp á ómælt víski og koníak og ég veit ekki hvað, enda kveikti það í mörgum. Ingibjörg brást ekki frekar enn fyrri daginn og bauð upp á ástþrungna hjónabandssælu eins og henni einni er lagið. Hún var næstum því eins góð og sú sem mamma mín bakaði.

Var fólkið í alls konar fatnaði. Allt frá heimskauta úlpum niður í léttan samkvæmisfatnað. Marta ljósmyndadrottning var í nýprjónaðri peysu í líflegum litum með bláum rennilás og alles.

Eftir nestisát skiptist fólkið í nokkra undirhópa, svo sem.

1) Ganga niður með ánni, hópurinn.
2) Týna steina á árbakkanum, hópurinn.
3) Ljósmynda, hópurinn.
4) Nenni ekki að gera neitt sérstakt, hópurinn.
5) Vera bara í fýlu, hópurinn.
6) Láta sér leiðast, hópurinn
7) Skjálfa bara í kuldanum í takt, hópurinn.
8) Fá sér bara smók, hópurinn.
9) Þykjast bara vera túristi, hópurinn.

Á endanum fundust allir, rútan fylltist og ekið var af stað á hrisstibretti hins illa.

Var nú hristst eða pissað til skiptis á leið í bæinn. Stoppað var í Hvítárnesi ( til að efna svikin loforð ), skoðuð stórhýsi Ferðafélagsins á staðnum. Þarna er m.a. stöðuvatn mikið, sem fær vatn sitt úr jöklinum og úr því vatni leggur Hvítá af stað á leið sinni til sjávar. Hraðsyndustu vatnsmólekúlin ( H2O ) eru ca. sex daga á leið til sjávar og geri aðrir betur.

Ennþá voru ferðalangarnir svangir og því ekki til setunnar boðið. Var nú þeyst niður að Brattholti eða Hótel Gullfoss eins og það er kallað á túristamáli.

Þegar við vorum að nálgast hótelið þá allt í einu skullum við inn á malbikaða vegakerfið. Voru viðbrigðin svo hastarleg og óvænt að margir urðu meirir og táruðust  eða grétu svona inn í sér, en aðrir sungu þjóðsönginn með hönd á hjarta. Allir klöppuðu og buðu hvort annað velkomið til siðmenningarinnar.

Í Hótel Gullfossi fengum við flest lambafille með kartöflum og grænmeti, nema þeir sem voru með breskt aðalsblóð í æðum, þeir fengu auðvitað lax ( but of course ). Þetta var ágætis matur, meira að segja var boðið upp á stórar skálar með al-íslenskri rabbarbarasultu úr heimabyggð. Það setti svolítinn skugga á veisluhöldin að ekki var í boði þjóðardrykkurinn Pepsi-Max. Í eftirrétt var boðið upp á súkkulaði bollur úr Bónus. Voru þær í frönskum stíl með ískúlu ofan á.

Athygli vakti snaggaraleg þjónusta þjónustufólksins, sem var að mestu af erlendu kyni. Þeim tókst að ná af okkur diskunum, ef við vorum ekki með athyglisgáfuna stillta á hámarks skerpu. Ef við t.d. litum örsnöggt út um gluggan, þá var diskurinn horfinn.
 
Nú var komið að brottför og ekið til Reykjavíkur á því dásamlegasta og guðdómslegasta og blíðasta malbiki, sem maður gat hugsað sér. Maður getur alveg tárast af minna. Á leiðinni var allt í einu eldsnöggt ákveðið að keyra um Nesjavelli og Nesjavalla leið í bæinn. Hreinn var afar stoltur af þessu, enda er hann þar nokkurs konar starfsmaður á plani.

Var meðal annars stoppað á útsýnispalli hátt upp í fjöllunum. Kuldi og mikið rok var þar. Sáum við eiginlega ekkert, því að útsýnið fauk út í buskan jafnóðum og það birtist, svo mikið var rokið.

Var endað á bílaplaninu við Indjánatjaldið hans J. Kræsts innan um óteljandi númerslausa bíla, sem voru að þvælast þar öllum til mikillar undrunar og armmæðu.
 

Lauk þar með afar merkri tilraun á svokallaðri hristimeðferð á hópi eldri borgara.

Félagsfundir

Félagsfundir eru haldnir fyrsta laugardag í mánuði kl: 11:30 á Kringlukrá, hliðarsal.

Gönguhópar

Gönguhópur  alla föstudaga kl. 11:30 hittist við bílastæðið við Vífilsstaðavatn. Kaffihús og spjall eftir gönguna í Golfklúbbi GKG við Vífilsstaðaveg í Garðabæ.

Gönguhópur öll þriðjudagskvöld kl: 16:30 frá Árbæjarlaug. Hópurinn hittist í anddyri Árbæjarlaugar.

Gönguhópur flesta sunnudaga kl: 13:30 hittist sunnan við Hallgrímskirkju.

Ferðahópur fer 1x í mánuði í lengri göngur sem kynntar eru á félagsfundum.

Spjallfundir

Spjallfundir eru kl 18:00-21:00  öll miðvikudagskvöld í Gamla Kaffihúsinu Drafnarfelli

Spjallfundir eru í Perlunni á mánudögum kl. 15:30-17:30 

Morgunverðar-spjallfundir eru í IKEA fimmtudaga kl. 10:00-11:30

Þú ert hér:   HeimEldri fréttir og tilkynningarSumarferð Parísar 2019-Ferðasaga
Paris.is á Facebook!