thakgil 

 

Svaðilför Parísarhóps í Þakgil 18.08.2018 - 

Lagt var af stað frá Mjóddinni ( frá indiánatjaldinu hans Jesú Krists ) kl. 9,15. Brottför tafðist aðeins um ca. 15 mínútur, vegna svokallaðs Maraþons í vesturbæ Reykjavíkur. Fararstjóri var okkar heitt elskaði Þórarinn og bílstjórinn í þessari för var hefðbundinn Íslendingur að nafni Halldór, enda allir búnir að fá nóg af „fansý“ bílstjórum frá Serbíu eða Afganistan. Þórarinn var búinn að koma sér upp nýrri flautu, enda verið eins og skugginn af sjálfum sér eftir tapið á eldri flautunni, sem talið er að kattavinafélagið hafi stolið.

Var nú ekið, sem leið lá austur á Suðurland. Þar var fyrsta stopp svokallað Postulínsstopp á Hvolsvelli, þar sem konurnar raða sér í langar biðraðir fyrir utan kvennaklósettin, en karlarnir vinda sér beint inn á karlaklósettin og pissa í svokallaðar þvagskálar. Kosturinn við karlana er að þeir þurfa ekki að skoða sig í spegli í 10 mínútur eftir hverja salernisferð. Eftir hefðbundinn ís/kaffibolla var ekið viðstöðulaust austur í Reynisfjöru. Það er hrikalegur staður, þar sem túristum, sem ekki hafa ennþá borgað fyrir rútuna er fórnað, Atlantshafs guðinum til dýrðar.

Sjórinn þarna í fjörunni kemur alla leið frá Suðurskautinu, enda er megn Mörgæsa fýla af sjónum eins og allir vita. Þarna opinbera heimskir aular fávitahátt sinn með því að standa í brimskaflinum upp á mið læri. Aðrir senda börnin sín í stórhættulegt klettaklifur, til þess að ná af þeim hugsanlega „síðustu“ myndum úr lífi barnanna. Ótrúlegt !

Nú fóru flestir í bílinn, en einstaka þurfa alltaf að láta bíða eftir sér ( prinsessu syndrómið ) og ekið austar til að komast í Þakgil, sem var aðal markmið ferðarinnar. Þakgil þetta er merkilegur staður. Þarna lét Guð setja ósýnilegt þak, þannig að hann gæti haft það huggulegt þegar hann kæmi í smá skreppitúr til okkar. Þess vegna er alltaf logn og blíða í Þakgili. Guð er nefnilega orðinn svolítið aldraður þannig að gigtin er farið að narta aðeins í hann. Og við njótum þessarar óvenjulegu veðurblíðu, sem þar ríkir.

Akstursleiðin inn í Þakgil er nokkuð hrikaleg á köflum, sérstaklega er þar 180 gráðu beygja í snarbrattri fjallshlíðinni og þrátt fyrir frábæra leikni bílstjórans í fjalla akstri rakst afturendi     ( bossi ) rútunnar niður í þessari beygju. Fólk varð skelfingu lostið. Allir rifu upp farsímana sína til þess að hringja í sitt tryggingafélag og fá hækkun á slysatrygginguna sína. En þá kom í ljós að við vorum kominn út úr allri menningu, ekkert símasamband náðist ( utan þjónustusvæðis heitir það á þurru vélamáli ). Þá tókum við líka eftir því að hálf meðvitundarlausir unglingar lágu um alla móa og heldu á farsímunum sínum krampakenndu taki. Ætluðu greinilega að deyja saman í síðustu faðmlögum lífs síns.

Eins og allar góðar sögur endaði þessi vel og við náðum lifandi inn í Þakgil. Þessi upplifun að standa andspænis dauðanum og algjöru sambandsleysi símanna okkar, gerði okkur tryllt af hungri. Var nú heldur betur tekið til matar síns í glampandi sól og blíðu. Þegar fólk hafði lokið við aðalréttina hófst útdeiling á freistinga mat. Konur gengu um vellina og buðu sætindi og kökur, en menn buðu koníak. Þarna kenndi ýmissa grasa. Ingibjörg er drottning freistinga matsins og bauð nýbakaða hjónabandssælu. Ég verð alltaf meir og klökkur þegar hún birtist full hlaðin hjónabandssælu. Aðrir buðu Mozart kúlur, en samt ekki frá tímum Mozarts, það vantaði bara fiðlusónötur hans í þessum stóra tónleikasal náttúrunnar ( lesist Guðs ). Heiða gékk um með heilu boxin af hollustu mat ( apríkósur, döðlur og hvað eina ) og Jósef hellti koníaki í hvern mann. Þetta líktist mest því að ganga til altaris.

Svo skemmtilega vildi til að búið var að undirbúa heljarinnar brúðkaup í Þakgili. Gifting í stóra hellinum og reisulegt veislutjald undir veisluna á völlunum. Okkur var samt ekki boðið, vorum talin dálítið drusluleg og sjúskuð.

Þegar allir voru búnir að pakka öllum matarleifunum og skila þvagprufum og fleiru á salernis miðstöðina, en við höfðum einmitt keypt svokallaðan losunarkvóta fyrir hópinn í heild, var lagt af stað út úr Þakgili og þess freistað að komast lifandi út á þjóðveg 1.

Þegar rútan nálgaðist hina áðurnefndu 180 gráðu beygju í snarbrattri fjallshlíðinni, fór að heyrast lágstemmt bæna kvak um alla rútu sem vaxandi stíganda þegar umrædd brekka nálgaðist. Þegar bílstjórinn skellti rútunni í sjálfa beygjuna, rann hún aðeins til, skriplaði á steinhnullungi, heyrðust nokkur neyðaróp, sem svo breyttust í taugaveiklunar kennt lófaklapp, þegar menn sáu að rútan var ekki að fara velta neitt að ráði. Sumir ruku aftur í símann til að freista þess að ná sambandi við tryggingarfélagið sitt og biðja um lækkun á nýhækkaðri slysatryggingu sinni. Á endanum náðum við út á þjóðveg eitt heilu og höldnu, og sálin komin aðeins nær Guði.

Næsta stopp var við verslunarmiðstöð í Vík í Mýrdal. Nokkrir þurftu að skila inn þvagprufu þar.

Þegar Þórarinn til kynnti um seinkun frá fyrirfram samþykktu tímaplani, þ.e.a.s. sleppa Dyrhólaey en taka Skógarfoss í staðinn, varð allt vitlaust. Skiptist fólkið í tvær fylkingar, sem börðust á bílaplaninu við verslunarmiðstöðina. Fór svo að fylgismenn Skógafoss létu undan síga og fóru á salernið, en fylgismenn Dyrhólaeyjar börðu sér á brjóst.

Upp á Dyrhólaey er alls konar undarlegur gamall ryðgaður tækjabúnaður. Einhvers konar vindur og talíur. Ekki voru menn sammála um hvað þetta væri, ef til vill búnaður til að hífa upp strandgóss. Jafnvel hugsanlegt að menn hafi kveikt villuljós upp á klettunum til að rugla skip svo að þau sigldu beint upp í fjöru og brotnuðu. Síðan sigu menn niður og sóttu sér dýrindist erlendar vörur. Það var oft vöruskortur á fyrstu árum kaupfélagsverslunarinnar, eins og allir vita.

Þegar allir voru búnir að mynda götótta kletta var rokið af stað í kvöldmatinn á Hótel Stracta á Hellu, enda allir að verða hungurmorða. Búið var að panta fyrirfram eins mat og eftirrétt fyrir allan hópinn, nýslátrað lambakjöt ( og ný steikt líka ) en ekkert Vegan kjaftæði. Síðan súkkulaði terta í eftirrétt. Samkvæmt venju opnaði Jósef aldursforseti Parísar vínbar úti á palli við inngang hótelsins. Þar sem hann dreifir víninu frítt snarversnar samkeppnisstaða hótelsins svakalega. Ef íbúar Hellu fréttu af þessum verðlausa vínbar myndu Hellubúar örugglega byrja að safnast í biðraðir upp úr hádegi alls staðar þar sem Parísarbúar eru á ferð.

Þegar matardiskarnir með kjötinu voru bornir fram brá mörgum. Nokkrar kjötflísar, fjórar kartöflur og sósa úr dropateljara ( sextán dropar skv. Evrópu staðli ) sett út á. Við vorum nefnilega orðin SVÖNG með stóru S. Nú rifjuðust upp tveggja ára gamlar hrakningar frá rútuferð fyrir tveimur árum síðan, en þá flæddu margar sósutegundir um öll borð á veitingastaðnum Árhúsi ( Århus på dansk ) líka á Hellu. Ef til vill glíma Hellubúar við svokallað sósuheilkenni. Reyndar var allt starfsfólkið á Árhúsi frá gúllaslandinu Ungverjalandi. Þetta þarfnast greinilega nánari athugunar. Nú voru góð ráð dýr. Ég ákvað að tala við einn þjóninn minnugur þess að í rútuferðinni í fyrra þegar við borðuðum á Hótel Heklu og þegar ég bað um ábót, var mér næstum hent út á bílaplan. Ég herti upp hugann og ávarpaði einn þjóninn, sem umsvifalaust sagði „ English please „ það þykir orðið dónaskapur á fínni veitingastöðum að tala íslensku. Ég spurði eins kurteislega og mér var unnt á ensku, hvort hægt væri að fá meira kjöt, sem sagt ábót eins og höfuðstaðabúar kalla það. Hann horfði forviða á mig og hélt að ég væri að grínast. En svo sá hann að mér var alvara og sagðist skyldu spyrja kokkinn. Stuttu síðar kemur heil hersing af þjónum og fara að rífa tómu diskana af borðinu. Nú hélt ég að sérsveitin væri að koma úr Reykjavík. En viti menn, allir fengu nýja diska kúfaða af kjöti og meðlæti, miklu meira magn heldur en var á fyrstu diskunum. Það var greinilegt að fyrri diskarnir voru bara forréttur eða smakk, nú kom aðalrétturinn. Og sósurnar komu í könnum, greinilega búið að farga dropateljurunum. Nú gátu menn ekki einu sinni klárað. Jæja svo kom eftirrétturinn, súkkulaði tertu sneið á stærð við frímerki. Hefði sómt sér vel á árshátíð Félags Frímerkjasafnara. Með henni komu tvær fingurbjargir af rjóma, 1-3 bláber og eitt dvergjarðarber, klofið.

Hótel Stracta er mjög stórt og mikið hótel með heitum pottum, gufuböðum í trétunnum og alles. Nú var hlaupin heimþrá í hópinn og fólk sá rúmið sitt fyrir sér í hillingum. Lagt var því af stað í rútunni burrandi og urrandi, eins og að skógarbjörn væri fastur undir rútunni. Enginn skýring fannst á þessu sérstaka hljóði, sem kom frá rútunni.

Við flugum heim eftir enn eina velheppnaða Parísarferð og lentum um rúmlega hálf tíu um kvöldið við indjánatjaldið hans Jesú Krists í Mjóddinni. We did it again !

 

 

 

 

 

Félagsfundir

Félagsfundir eru haldnir fyrsta laugardag í mánuði kl: 11:30 á Kringlukrá, hliðarsal.

Gönguhópar

Gönguhópur  alla föstudaga kl. 11:30 hittist við bílastæðið við Vífilsstaðavatn. Kaffihús og spjall eftir gönguna í Golfklúbbi GKG við Vífilsstaðaveg í Garðabæ.

Gönguhópur öll þriðjudagskvöld kl: 16:30 frá Árbæjarlaug. Hópurinn hittist í anddyri Árbæjarlaugar.

Gönguhópur flesta sunnudaga kl: 13:30 hittist sunnan við Hallgrímskirkju.

Ferðahópur fer 1x í mánuði í lengri göngur sem kynntar eru á félagsfundum.

Spjallfundir

Spjallfundir eru kl 18:00-21:00  öll miðvikudagskvöld í Gamla Kaffihúsinu Drafnarfelli

Spjallfundir eru í Perlunni á mánudögum kl. 15:30-17:30 

Morgunverðar-spjallfundir eru í IKEA fimmtudaga kl. 10:00-11:30

Þú ert hér:   HeimEldri fréttir og tilkynningarRútuferð - Þakgil 18-08-2018
Paris.is á Facebook!