Hristingur, rútuferð Parísar 12.08.2017

 

 

Lagt var af stað frá Mjóddinni ( frá indiánatjaldinu hans Jesú Krists ) kl. 9:00 eins og venjulega. Brottför tafðist aðeins um ca. 10 mínútur, sem er eðlilegt, enda finnst prinsessum að þær hafi rétt á því að koma of seint. Fararstjóri var okkar heitt elskaði Þórarinn flautulausi og bílstjórinn í þessari för var sóttur sérstaklega alla leið til Serbíu, enda er Serbía utan Schengen svæðisins. Tókst að finna mann að nafni Alexander, sem aldrei hafði ekið yfir óbrúuð vatnsföll og án reynslu af akstri á malarvegum í íslenskum óbyggðum. Við verðum ævinlega þakklát fyrir það að bílstjórinn skyldi ekki vera sóttur til Afganistan. Þegar bílstjórinn stansaði við óbrúuð stórfljót, eða brattar brekkur eða aðrar torfærur og hikaði, þá sagði Þórarinn flautulausi við Alexander bílstjóra „piece of cake, drive on“.

Þegar komið var að Ingólfsfjalli á  leiðinni austur stóð á skilti þar 0 vindstig. Þetta hlýtur að vera prentvilla eða villa á skiltinu, því að vindur getur ekki staðið kyrr og haldið niðri í sér andanum. Hann getur það bara ekki, hann myndi einfaldlega detta niður á jörðina.

Á leiðinni austur sagði Þórarinn klámbrandara úr Biblíunni og hafði þá eftir einhverri nunnu sem hann hafði verið að dinglast með. Ætli Páfinn viti af þessu ?

3-Urridafoss-308

Fyrir utan klósett stopp á Olís stöð við Ölfusárbrú var fyrsta stoppið við Urriðafoss í Þjórsá. Okkur var sagt að þetta væri vatnsmesti foss landsins. Þá varð mér hugsað til Norðlendinga, sem örugglega eiga til vatnsmagns mælingar, sem sýna að ívið meira vatnsmagn sé í þeirra kæra Dettifossi. En hann heitir einmitt Dettifoss af því að vatnið dettur fram af klettabrún, en hoppar ekki. Og svo er spurningin hvernig mæla þeir vatnsmagn ? Er einhver svo snöggur að  hann treysti sér til að telja vatnsmólekúl ( H20 ) á ferð, enda eru vatnsmólekúlin á miklum hraða og eru að flýta sér einhver ósköp til sjávar, en til hvers spyr ég.

4-Urridafoss-307

Foss  er í raun og veru nauða ómerkilegt fyrirbæri. Við erum öll með lítinn baby foss heima hjá okkur í eldhúskrananum.

Síðan var ekið upp Landssveit, stoppað við klósetthús hjá Leirubakka og stuttu síðar var þjóðvegakerfi Vegagerðarinnar yfirgefið og ekið beint af augum út í auðnina. Hófst þá dómadags hristingur og hávaði á Dómadalsleið. Lék öll rútan á reiðiskjálfi enda á milli. Var hristingurinn svo magnaður að fólk með gervitennur gat ekki talað af ótta við að missa tanngarðana út úr sér.

5-Landmannahellir-333

Næst var áð við Landmannahelli og nestið borðað og fólkinu dreift á 4 borð og voru 500 metrar á milli borða, svo að ekki heyrðust kjaftasögurnar á milli og þurftum við að nota kíki til að sjá hverjir væru við hin borðin. Ingibjörg klikkaði ekki á heima undirbúningnum og bakaði fullt af hjónabandssælu og komu flestir heim fullir af ást og sælu.

6-Landmannalaugar-351

Síðasta stopp var í Landmannalaugum, sem var aðal markmið ferðarinnar. Þar tvístruðust menn og konur í allar áttir eftir sameiginlega biðstöðu á fjöldaklósetti staðarins. Sumir fóru upp á laugaveginn, aðrir fóru hverfisgötuna og enn aðrir þvældust um svæðið og blönduðu geði við útlendingana, enda engir Íslendingar nema við á svæðinu. Einstaka fóru og skoðuðu fáklæddar stúlkur, sem böðuðu sig í hinum eina og sanna heita potti og hefur það eflaust yljað mörgum. Ótrúlegt hvað fáklæddar ungar stúlkur geta dregið að sér mikla athygli.

Tveir íslenskir strákar ráku matvörumarkað í gamalli rútu frá ameríska hernum. Þetta voru röskir en frekar viðkvæmir ungir menn. Þegar við birtumst þar til að verzla grétu þeir af gleði og komu fram fyrir búðaborðið til að faðma okkur og fá smá tækifæri til að tala móðurmálið. Greinilega með mikla heimþrá.

Í Landmannalaugum rifjuðu tveir Parísar félagar upp afrek sín frá árinu 1968, þegar þeir unnu við mannvirkjagerð, nokkurs konar hitaveitu á svæðinu ásamt 3 vönduðum eldri mönnum, sem nú eru látnir. Einn þeirra var fyrrverandi Hitaveitustjóri í Reykjavík,  Jóhannes Zoega, faðir núverandi fjármálaráðherra.

7-Landmannalaugar-354

Nú var komið að heimferð og var ekið aðeins norðar meðfram Tungufljóti til þess að stytta leiðina að alvöru malbikuðum þjóðvegi. Samt var enn mikill hristingur og fannst mörgum nóg um. Birna reyndi að blíðka mannskapinn með því að útdeila pólsku sælgætishlaupi og fór það sæmilega í menn, allavega held ég að enginn hafi fengið pólskan niðurgang, sem getur verið svæsinn.

Rútan neitaði að fara upp brekkur nema í fyrsta gír og var eins og illir andar hefðu tekið sér bólfestu í vél og sjálfskiptingu. Hófust þá miklar umræður um það hvað gengi að rútunni. Kom þá í ljós að nánast allir farþegarnir  voru gríðarlega sérfróðir um eðlisfræðilega eiginleika dísilvéla og sjálfskiptinga. Í leiðindum sínum fóru farþegar að rífast um hvort einhverjir fjallstoppar í 500 mílna fjarlægð væru Kerlingafjöll eða Jarlhettur, en vegna gífurlegs hristings rútunnar náðist aldrei að sjá þessi fjöll í fókus. Loks komust við á alvöru Vegagerðarmalbik og hresstust menn og konur þá all nokkuð.

Stoppað var við háfjallahótel og veitingahús, sem heitir Hrauneyjar. Þar setti aldursforseti Parísar upp skyndikynna bar á útipalli veitingahússins og bauð ýmist vískí eða koníak á miklu miklu miklu lægra verði en Costco ( o my god ). Hann var heppinn og slapp við kæru vegna þess að veitingamaðurinn var fyrir sunnan í gleðigöngunni miklu á hinsegin dögum í Reykjavík. Sagt er Costco ætli að loka í viku á meðan þeir íhugi stöðu sína.

Næst var ekið í einum rykk niður allar sveitir. Var rútan þá eins og bremsulaus rússibani. Ekki var staðnæmst fyrr en við Hótel Heklu, þar sem átti að snæða hátíðar kvöldverð. Sem að sjálfsögðu var lambakjöt og meðlæti auk eftirréttar, sem samanstóð af rabbarbarapæ úr heimaræktuðum rabbarbörum, smá rjómasléttu og heilu mintu laufblaði.

Þarna voru hugguleg, stór borð dúkuð, 1,8 metrar á breidd, svo að engin hætta væri á að fólk væri að skiptast á mat yfir borðið til þeirra sem sátu á móti þeim. Tau sérvéttur og enskumælandi finnskir þjónar, sérstaklega fluttir inn frá Finnlandi í þessi verk. Seinna komst ég að því að þeir voru í raun „under cover ghostbusters“ enda hótelið fullt af illum öndum, sem tóku sér bólfestu í tækjabúnaði Hótelsins, svo sem VISA posum, kaffivélum og kvennaklósettum svo fátt eitt sé talið. Þegar ég spurði einn finnska þjóninn mjög kurteislega hvort hægt væri að fá ábót af kjötinu varð Birna öskureið og skammaðist sín svo mjög fyrir mig að hún ætlar ekki að heilsa mér á götu framar, allavega til áramóta. Birna var svo reið að hún gaf mér viðurnefnið Ábót, sem er ekki svo slæmt, því að þá þarf ég bara að bæta við einu litlu i og þá er ég í raun orðinn mjög háttsettur maður innan Katólsku kirkjunnar. Ekki slæmt það.

Þessi kurteislega beiðni mín um ábót á kjötið ýtti svo við þjónunum að þegar einhver bað um meiri rjóma með rabbarbarapæinu þá komu þeir æðandi inn í salinn með rjómasprautur og ýmist sprautuðu beint upp í fólk eða á diskinn þeirra.

Fréttir af sósuflóðinu mikla í fyrra í Árhúsum ( Århus på dansk ) á Hellu höfðu greinilega borist Hótel Heklu, því að þjónarnir báru fram viðbótar sósu í risakönnum, sem tóku a.m.k. gallon hver. Engin okkar hafði áður séð svona stórar sveppasósukönnur.

Eftir þessa velútilátnu máltíð var lagt í hann heim á leið. Í Kömbunum héldu allir niðri í sér andanum þannig að rútan léttist eitthvað, auk þess sem Sigrún Edvards fór með faðirvorið 20 sinnum og 50 Maríubænir, sem örugglega hjálpaði okkur mikið, því að máttur andans er mikill. En samt  var rútan okkar lang síðust í því rallýi sem alltaf fer fram þar í Kömbunum á uppleiðinni. Enda þurfa allir að gefa í botn þar á nýju bílunum sínum til að sýna hvað þeir geta.

Ég held að finnsku ghostbusterarnir á Hótel Heklu hafi náð að fanga suma illu andana, sem höfðu tekið sér bólfestu í vél og sjálfskiptingu bílsins, þeir voru allavega meira til friðs á heimleiðinni. Það sem allir óttuðust mest var að við yrðum öll að fara út og ýta rútunni upp Kambana, sem hefði að vísu gert okkur heimsfræg, en „hjúkk“ við sluppum við það.

Við náðum til Reykjavíkur fyrir miðnætti. Að vísu voru vökulög Evrópusambandsins brotin, en það slapp af því að Serbía er ekki í Evrópusambandinu. Alexander ökumaður reddaði þessu. Allir náðu heilu og höldnu heim áður en útivistarbann eldri borgara skall á. Enn einni glæfraferð Parísar fólks lokið stórslysalaust.

Félagsfundir

Félagsfundir eru haldnir fyrsta laugardag í mánuði kl: 11:30 á Kringlukrá, hliðarsal.

Gönguhópar

Gönguhópur  alla föstudaga kl. 11:30 hittist við bílastæðið við Vífilsstaðavatn. Kaffihús og spjall eftir gönguna í bakaríinu Kökulist að Iðnbúð 2 í Garðabæ.

Gönguhópur öll þriðjudagskvöld kl: 18:30 frá Árbæjarlaug. Hópurinn hittist í anddyri Árbæjarlaugar.

Gönguhópur flesta sunnudaga kl: 13:30 hittist sunnan við Hallgrímskirkju.

Ferðahópur fer 1x í mánuði í lengri göngur sem kynntar eru á félagsfundum.

Spjallfundir

Spjallfundir eru kl 20-22  öll miðvikudagskvöld í Gamla Kaffihúsinu Drafnarfelli

Spjallfundir eru í Café Flóran, Grasagarðinum á mánudögum kl. 16:00-18:00 

Morgunverðar-spjallfundir eru í IKEA fimmtudaga kl. 10:00-11:30

Þú ert hér:   HeimEldri fréttir og tilkynningarFerðasaga Matthíasar "Hristingur". Rútuferð í Landmannalaugar 12 ágúst 2017
Paris.is á Facebook!