Lagt var af stað kl. 8,30 frá Mjóddinni á nýrri rútu frá Teiti Jónassyni. Fararstjóri var hinn margreyndi, fróði og lipri Þórarinn Þórarinsson. Tveir félagar, sem höfðu skráð sig urðu eftir, ekki vegna óþægðar, heldur af ýmsum óviðráðanlegum orsökum. Þórarinn var vopnaður dómaraflautu, sem á eftir að koma við sögu. Með í för var einnig leikfimipallur eða þrep, enda alltaf gott að geta tekið smá rispu í pallaleikfimi þegar vel stendur á. 
Fyrsta stopp var Hyrnan í Borgarnesi til að tappa af þvagblöðrum. Sumir stálust reyndar til að kaupa sér snarl og nammi. Þarna kom flautan góða sér vel, því að Þórarinn notaði hana óspart til að kalla flokkinn heim í rútu, en aldursforsetinn í hópnum hafði þá rokið út í buskann og var kominn í annan bæjarhluta og heyrði ekki flautið. Ef til vill ætti Þórarinn að koma sér upp þokulúðri fyrir næstu ferð. 
Nú var ekið út í Brákarey, en ekki stoppað. Þórarinn sagði frá Agli Skallagrímssyni, Brák og öðrum úr fjölskyldunni. Fjölskyldumálin á þeim tíma , gátu verið nokkuð harkalegri en í dag, enda hvorki til  fjölskylduráðgjafar né sálfræðingar þá. Eftir Brákarför var stoppað í „kirkjugarði“ Egils Skallagrímssonar, þar sem hann er talinn grafinn. Tók aldursforsetinn þá aftur á rás og hvarf út í skóg, en skilaði sér þegar Þórarinn blés kröftuglega í flautuna góðu. En blíðlyndur köttur, sem var að spóka sig í rólegheitum í garðinum fékk næstum hjartaáfall þegar þrumandi flautublístrið truflaði hann. 
Nú var ekið upp Mýrarnar og Þórarinn fræddi okkur um fjöll og eldborgir. Var svo stoppað að Laugum við Hítará. Þar hafði Jóhannes glímukongur ( sem byggði Hótel Borg í Rvík ) byggt sér snotran veiðikofa á fallegum stað. Þar sá ég í fyrsta sinn skilti ( Brúarfoss ) í 8 sentimetra hæð frá jörðu. Greinilega miðað við læsa ketti eða dauðadrukkna veiðimenn á fjórum fótum að leita sér að góðum veiðistað. 
Næsta stoppistöð var Vegamót og á leiðinni þangað tróð Þórarinn í okkur enn meiri eldfjalla fróðleik. Vegamót er staður þar sem fólk með valkvíða þarf að ákveða sig, hvort það ætli til Stykkishólms eða lengra vestur á nesið. Þarna er kaffihús og fóru allir þar inn og versluðu sér salernisaðgang ( 100 kr. ) eða kaffi og meðlæti. Þótti fólki kaffið gott og ódýrt, en meðlætið dýrt. Þegar brottför nálgaðist flautaði Þórarinn kröftuglega í dómaraflautuna. Engir kettir sáust á svæðinu, þannig að engin köttur beið skaða af. 
Næst var ekið að Hellnum. Á leiðinni fengum við greinagóða lýsingu á þekktum íslenskum raðmorðingja, sem Axlar-Björn hét. Virtist allt hans slekti vera sídrepandi alla í kringum sig. Axlar-Björn rak gistiheimili þar sem ferðalangarnir þurftu ekki að tékka sig út, enda tékkaði Björn þá út að eilífu og ferðuðust þeir ekki meira í því lífi. Axlar-Björn og hans slekti er talið hafa eignast  þúsundir afkomenda og væri fróðlegt að fara yfir lista yfir þá sem eru á lífi núna, þannig að maður geti tekið á sig krók, ef maður hittir þá á förnum vegi. Það væri líka fróðlegt að kanna hve margir af núlifandi afkomendum hans reki gistiheimili eða sláturhús í dag. 
Næsta stopp var  Djúpalónssandur. Safnaði Hrafnhildur þar svo miklu magni af steinum að rútan þyngdist verulega. Þarna er komin góð aðstaða, salerniskjarni fyrir sí-pissandi ferðalanga, bekkir og borð fyrir nestisát sí-svangra ferðalanga. Heill togari er í fjörunni í bútum og allt mögulegt. Það yrði stórt púsluspil að koma þeim togara saman aftur í nothæft ástand. Þarna í fjörunni er Guð búinn að vera að slípa steina í aldanna rás og hefur þetta bara gengið nokkuð vel hjá honum. Ólöf og Jósef fóru í örstuttan berjamó og létu vel af sér, berjablá og alles. Ekki þurfti Þórarinn að blása í flautuna og bæði kettir og mannfólkið prísaði sig sæla. Ekki var tími til að skoða Dritvík, sem er í ca. 1km fjarlægð frá Djúpalónssandi 
Næsti áfangastaður var míní-þorpið Hellnar. Þar var aðalnestið snætt í bröttum grasi grónum brekkum með sjávarútsýni. Ingibjörg bauð karlmönnum upp á heimilislega hjónabandssælu. Hún klikkar aldrei. Óþægilegt var að fylgjast með erlendum ferðamönnum, sem flæddu um fjöruna og upp á klettasyllur. Mér sýndist sárlega vanta útibú frá öryggiseftirlitinu á staðinn. Þarna kúrir dúllulegt kaffihús með einu salerni í brattri hlíð og útsýni yfir ennþá dúllulegri höfn. 
Nú var tekin 180 gráðu beygja og stefnt í austurátt eftir stöðugan akstur í vesturátt. Var bara vinkað í Lóndranga enda enginn tími til að heilsa upp á þá.     Nú var haldið að Arnarstapa, sem er risaþorp samanborið við Hellna og Búðir. Fyrst var gónt á styttu af einhverjum Bárði Snæfellsáss. Í mínum huga gat þetta alveg eins verið stytta af kaupfélagsstjóranum, en hvað um það. Síðan var ekið niður að höfn, sem þar er. Mjög sæt og yndislega póstkortaleg smábátahöfn. Ég vona að enginn sjóara harðjaxl  lesi þetta. Hægt er að skoða höfnina af háum útsýnispalli, sem gnæfir yfir höfnina. Þessi pallur er gæddur þeim eiginleikum, að þegar stigið er inn á pallinn eru ca. 4 vindstig, en síðan vex vindhraðinn utar á pallinum og þegar komið er út á endann er þar ofsarok, jafnvel fárviðri. Það væri gaman að komast að því hvaða þekkingu smiðirnir, sem reistu pallinn, bjuggu yfir. Mér finnst að veðurstofan ætti að skoða þennan undrapall nánar. Ég er líka að velta fyrir mér eðli pallsins á vetrum. Hvort á endanum sé e.t.v. blindbylur en sól og blíða við inngöngu á pallinn. Fróðlegt ! 
Næsti áfangastaður var pláss, sem heitir  Búðir, samt eru engar búðir þar, ekki einu sinni Bónus. Fyrst var stoppað við harðlæsta kirkjuna og hún skoðuð í gegnum gluggana. Sumir lásu á legsteina, ég veit ekki til hvers, enda er þetta allt látið fólk. Hrafnhildur fór að sjálfsögðu niður í fjöru í leit að gulli og fyllti nokkra poka af gullsandi og enn þyngdist rútan. Ég vona að rútufyrirtækið rukki okkur ekki um malarflutningagjald. Þegar við vorum að leggja af stað frá kirkjunni uppgötvaðist að þrjár konur vantaði. Voru nú góð ráð dýr. Sumir vildu auglýsa eftir þeim, aðrir vildu senda út leitarflokka. Einhver fékk hugboð að handan um að þær væru komnar á Hótel Búðir. Var ekið þangað og biðu þær á hlaðinu brosandi út að eyrum, enda höfðu þær farið í lúxus salernismeðferð á hótelinu. 
Enn  flautaði Þórarinn til brottfarar og einn köttur hoppaði tvöfalda hæð sína. Ég legg til að hannaðir verði eyrnatappar fyrir ketti til notkunar á þekktum túristastöðum. Næsta var stoppað við Rauðfeldargjá. Í sömu sveit er til bærinn Bláfeldur. Ég veit ekki hvaða litafelda vesen þetta er í þessari sveit. Væri fróðlegt að skoða það við tækifæri. Stoppaði rútan á bílastæði fyrir neðan gjánna, en fótfráustu farþegarnir gengu á brattann upp að gjánni. Reyndist það mörgum nokkuð stíft klifur. Ekki var þetta ferð til fjár því að ekkert sést inn í gjánna því að búið er að setja S-beygju á gjánna strax eftir innganginn í hana. Auk þess hefur einhver sett læk í botn gjárinnar, þannig að maður þarf líka vaðstígvél, ef ekki á illa að fara. Þannig að við urðum frá að hverfa án þess að sjá inn eftir gjánni. Mér datt í hug að það gæti verið góður bissniss að setja upp vaðstígvélaleigu á bílastæðinu við gjánna. Auðvitað gékk niðurleiðin miklu betur en ferðin upp eftir, þó fengu sumir í hnéin af einhverjum ástæðum. 
Nú var ekið í einum rykk að Vegamótasjoppunni og urðu miklir fagnaðarfundir hjá starfsfólkinu að sjá okkur aftur. Þórarinn sagði þetta eingöngu vera salernisstopp, en fólk hlustaði ekki á hann og verslaði sér kaffi og með því. Þórarinn flautaði og flautaði, en sumir létu bíða eftir sér. Gerðu sér enga grein fyrir því hve dómaraflauta er alvarlegt mál. Það á ekki að vera með léttúð þegar flautan er þanin. Engir kettir hrukku við. 
Var nú ekið non-stop niður í Borgarnes og ekkert stopp þar, heldur ekið viðstöðulaust upp í Norðurárdal. Vegna þess hve  tímaplanið var vel unnið ( ekki gert í excell ) reyndist smá tími afgangs til að skoða Paradísarlund og fossinn Glanna. Fossinn er ekkert glannalegur, en útsýnispallurinn þar er dálítið glannalegur. Ef til vill dregur fossinn nafn sitt af útsýnispallinum. Auðvelt er að fá svimatilfinningu á pallinum þegar maður hallar sér fram yfir handriðið. Þórarinn flautaði, engir kettir hrukku við, og rútan 
flutti okkur síðasta spölinn upp í Hraunsnef. Þar beið okkar þriggja rétta hlaðborð í sérstökum sal. Varð að hafa okkur í sér sal vegna þess að við borðum svo mikið að ekki er hægt að láta venjulega matargesti í aðalsal horfa upp á þessi óskaplegu átvögl. Fyrst var frábær tómatsúpa með heimabökuðu brauði og smjöri. Síðan kom fiskigratin með þorski og fleiru og loks endað með lambapottrétti og kaffi og súkkulaði. Menn voru svo saddir og útblásnir eftir matinn að þeir komust ekki í einum áfanga út í rútu, heldur urðu að hafa stuttan stans á útisvæði við veitingahúsið til þess að jafna sig áður en fólk treysti sér alla leið í rútuna á bílastæðinu. Var rútan nú orðin fullhlaðin enda hafði bæst við heilt 25 manna hlaðborð auk grjóts og gullsands, sem áður segir frá. 
Nú var brennt í bæinn á meðan fólk fékk sér lúr í rútunni eftir matinn. Lent á bílastæði í Mjódd ca. Kl. 21,30 og allir mettir og ánægðir. Skemmtileg og fróðleg ferð án rigningar. Okkur Parísarfólki tókst það enn einu sinni.
Höfundur Matthías Matthíasson  

Félagsfundir

Félagsfundir eru haldnir fyrsta laugardag í mánuði kl: 11:30 á Kringlukrá, hliðarsal.

Gönguhópar

Gönguhópur  alla föstudaga kl. 11:30 hittist við bílastæðið við Vífilsstaðavatn. Kaffihús og spjall eftir gönguna í Golfklúbbi GKG við Vífilsstaðaveg í Garðabæ.

Gönguhópur öll þriðjudagskvöld kl: 16:30 frá Árbæjarlaug. Hópurinn hittist í anddyri Árbæjarlaugar.

Gönguhópur flesta sunnudaga kl: 13:30 hittist sunnan við Hallgrímskirkju.

Ferðahópur fer 1x í mánuði í lengri göngur sem kynntar eru á félagsfundum.

Spjallfundir

Spjallfundir eru kl 18:00-21:00  öll miðvikudagskvöld í Gamla Kaffihúsinu Drafnarfelli

Spjallfundir eru í Perlunni á mánudögum kl. 15:30-17:30 

Morgunverðar-spjallfundir eru í IKEA fimmtudaga kl. 10:00-11:30

Þú ert hér:   HeimEldri fréttir og tilkynningarFerðasaga frá ferð á Snæfellsnes 9 ágúst 2014
Paris.is á Facebook!