Hér kemur ferðasaga frá Matthíasi, sem að sögn vegna fjölda áskorana hefur sett saman smá ferðalýsingu úr Hvalfjarðarferð Parísar um verslunarmannahelgina síðustu.

Einnig sendi Matthías nokkrar myndir úr ferðinni sem eru í myndasafni undir "myndir"

 

 

Ferð Parísarfélaga um Hvalfjörð laugardaginn 3.ágúst 2013 ( verslunarmannahelgi )

Laugardaginn 3. ágúst 2013 var haldinn venjubundinn Parísar fundur í sal Kringlukráarinnar kl 11,30.
Þar sem búið var að ákveða að fara í ferð um Hvalfjörð strax eftir fundinn, var matur pantaður inn á fundinn til að flýta fyrir, flestir fengu sér súpu. Þegar byrjað var að ákveða hverjir ætluðu að sameinast í bíla, fór allt í rugl. Sumir vissu varla hvort þeir ætluðu að fara eða ekki. Var þá ákveðið að þeir sem væru nokkuð vissir eða alveg vissir um þáttöku, færu upp að Húsgagnahöll og þar yrði raðað í bílana. Þetta virtist þó flækjast fyrir sumum, því að sumir fóru í búðir til að versla sér nesti ( Þó var búið að segja fólki að hafa nesti með ). Aðrir fóru að skila bílum af sér og enn aðrir fóru að heimsækja frænkur og frændur víðs vegar í bænum. Þeir óþolinmóðustu gátu þó ekki hamið sig og lögðu bara af stað.
Einhver hafði sagt á Kringlukráarfundinum að aftaka veður og stormur væri á Kjalarnesi, þannig að aðeins einn bílstjóri þorði að keyra þá leið ( þekktur kjarkmaður úr Hafnarfirði ) , hinir fóru Þingvallaleið og þaðan niður í Kjós. Frekar hvasst var á leiðinni. Á leiðinni frá Þingvallavegi og niður í Kjós er fallegur foss, sem heitir Þórufoss En vegna vindspennings og roks var aðeins einn bílstjóri ( Birna ), sem þorði að stoppa á leið niður í Kjós. Gengu farþegar úr þeim bíl og skoðuðu fossinn. Sem betur fer fauk enginn sér til tjóns.
Nún var farið niður á láglendið í Kjós og áfram til Hvalfjarðar með stefnu á Hvammsvík. Bílarnir höfðu allir orðið viðskila og fóru sumir þvers og aðrir kruss. Smám saman birtust þó bílarnir í Hvammsvík. Fyrstur á staðinn var hugrakki bílstjórinn úr Hafnarfirði, svo Birna og síðan koll af kolli. Lítið var hægt að gera í Hvammsvík, nema híma undir húsvegg og bíða eftir einhverju, sem enginn vissi hvað var. Sumir fóru að pissa, en það var töluvert vandasamt í rokinu og vindhviðum, sem komu úr öllum áttum samtímis.
Að lokum skiluðu allir bílarnir sér og fellust menn í faðma eftir þennan langa aðskilnað og sóru og sárt við lögðu að héðan í frá myndum við halda hópinn. Var ákveðið að aka saman í einfaldri halarófu alveg inn í Hvalfjarðar botn, þar skyldi fundinn skjólsæll staður og matast, enda er matur kjarni allrar starfsemi Parísarklúbbsins. Hlíf sagðist staðkunnug þarna eftir að hafa rekið Botnskála í mörg ár fyrir löngu síðan.
Innst í Hvalfjarðarbotni ókum við fram á sveitamann fyrir utan hlöðu sína eða skemmu. Hann var eins og klipptur út úr Bændablaðinu. Tókust þau Hlíf í hendur eins og gert er í sveitinni, en ekki vildi hann samt leyfa okkur að borða nestið okkar á sinni jörð og vísaði okkur á nokkurs konar einskis manns land rétt þar hjá. Borðuðum við nesti okkar í faðmi náttúrunnar auk smá vegaryks og ekkert álegg fauk af brauðsneiðunum. Þegar allir voru orðnir saddir og búnir að teygja úr sér, var haldið af stað. Næsti áfangastaður var Hvalstöðin, átti að skoða bragga þar, en Kristján Loftsson í Hvalnum fældi mannskapinn burt. Þá var áfangastaðnum breytt í viðkomu á Bjarteyjarsandi, þar er hefðbundin túristabúð með ullar varningi og rabbarbarasultu, sem kostar eins og styrjuhrogn. Í minni æsku bjó móðir mín til heilu lítrana af rabbarberjasultu án þess að fá krónu fyrir. Ég er ekki frá því að hún hafi jafnvel verið betri en þessi túristasulta. Þarna á Bjarteyjarsandi er virðulegur geithafur, sem vaktar innganginn í íbúðarhúsið. Er ekki frítt við að hann hafi brosað þegar konur fóru að láta vel að honum.
Næsti áfangi var Hersetusetrið hans Gauja litla.
Þar þurfti að borga sig inn og tímdu sumir því ekki, enda virtist ekki mikið að sjá þar. Halldór festist í stríðsárakvíkmynd og tók töluverðan tíma að losa hann. Á meðan á því stóð biðu sumir ýmist úti eða í djúpum sófum í anddyrinu. Þegar Halldór var loksins laus úr bíóinu var haldið afram og stefnt á veitingahúsið á Láxárbakka, þar sem búið var að ákveða að snæða í næstu ferð Parísar laugardaginn 10. Ágúst. Voru aðstæður skoðaðar þar, lyktað og tekin sýni og staðurinn samþykktur. Fólk fékk sér jafnvel í tánna og fyllti bíla sína af heimagerðri kæfu og broddi. Kæfan var ekki afhent í belgjum eins og til forna, heldur vafinn í plast, sem mér fannst allt of nútímalegt.
Nú blasti lokaáfanginn við, sem var Akranes, þar átti að skoða eitthvað og snæða svo í Kaupfélaginu.
Þegar komið var á Akranes fundust engin söfn opinn, enda klukkan að verða 19,00 og allir þorpsbúar farnir að hvíla sig. Sigrún fór í nokkurs konar fortíðar ferð, enda uppalin þarna í plássinu.
Áður en kvöldmatur skyldi snæddur var farið út á blátangann, þar sem vitinn er lengst úti. Aftaka rok var á bílastæðinu, og erfitt reyndist að hemja bílhurðir í rokinu. Ein kona þurfti samt endilega að skoða vitann og fauk hún þangað alla leið og síðan fauk hún aftur til baka við illan leik, sæl og ánægð. Þið giskuðuð rétt, þetta var að sjálfsögðu Hrafnhildur okkar, brjáluð í allar fjörur og allan sjó.
Loksins var nú komið að kvöldmatnum, að vísu voru sumir sem brugðust og laumuðust heim, eins og gengur. Þessi veitingastaður ( Kaupfélagið ) var ágætur. Voru flestir ánægðir með sinn mat, en þó ekki allir. Við Halldór fengum okkur súper, dúper, risa upptjúnaðan hamborgara með krullufrönskum.
Sjaldan hefur undirritaður fengið jafn magnaðan hamborgara, inn í brauðinu var fyrir utan sjálfan hamborgarann, spælegg, humarhalar, beikon, skinka og grænmeti. Síðan voru franskar kartöflur upprúllaðar eins og slöngulokkar. Ekki veit ég hvernig þetta er gert , en gott var það. Hinir fengu sér alls kyns venjulegt dót og fara engar sögur af því. Þetta var svo magnaður hamborgari að við Halldór urðum að fá okkur ís á eftir.
Eftir þessa átveislu var lítið hægt að gera annað en að leggja af stað til höfuðborgarinnar og gékk sú ferð ágætlega og fóru allir heim sáttir og saddir eins og alltaf er eftir Parísarferðir.

Félagsfundir

Félagsfundir eru haldnir fyrsta laugardag í mánuði kl: 11:30 á Kringlukrá, hliðarsal.

Gönguhópar

Gönguhópur  alla föstudaga kl. 11:30 hittist við bílastæðið við Vífilsstaðavatn. Kaffihús og spjall eftir gönguna í Golfklúbbi GKG við Vífilsstaðaveg í Garðabæ.

Gönguhópur öll þriðjudagskvöld kl: 16:30 frá Árbæjarlaug. Hópurinn hittist í anddyri Árbæjarlaugar.

Gönguhópur flesta sunnudaga kl: 13:30 hittist sunnan við Hallgrímskirkju.

Ferðahópur fer 1x í mánuði í lengri göngur sem kynntar eru á félagsfundum.

Spjallfundir

Spjallfundir eru kl 18:00-21:00  öll miðvikudagskvöld í Gamla Kaffihúsinu Drafnarfelli

Spjallfundir eru í Perlunni á mánudögum kl. 15:30-17:30 

Morgunverðar-spjallfundir eru í IKEA fimmtudaga kl. 10:00-11:30

Þú ert hér:   HeimEldri fréttir og tilkynningarFerðasaga frá 3.ágúst, 2013 - Hvalfjarðarferð
Paris.is á Facebook!