Ferðasaga um rútuferðina 10. ágúst og nýjar myndir frá Matthíasi.

Þessa ferðasögu sendi Matthías og einnig nýjar myndir úr rútuferðinni sem hægt er að skoða undir "Myndir".

--------

En hér kemur sagan:

-----------

Ferð Parísarfélaga um Kaldadal laugardaginn 10.ágúst 2013. --
Upphaflega var pöntuð 30 manna rúta, en vegna frétta um lélegt ástand vegar um Kaldadal bauð rútu fyrirtækið bauð upp á háfætta aldraða en sterkbyggða kolakynnta rútu fyrir allt að 50 manns. Þessi aukasæti komu í góðar þarfir, því að sumar konurnar breyttu þessum auksætum í fataskápa og skiptu um föt a.m.k. þrisvar á leiðinni.
Safnast var í rútuna við kirkjuna í Mjódd og gékk það þokkalega, þó nokkrir gerðu sig í fyrstu líklega til að fara um borð í aðra rútu í grendinni.
Ekið var sem leið lá austur á Þingvöll og var rigningarsuddi og dumbungur á leiðinni og leist mörgum illa á framhaldið, en sérstakur veðurguð Parísar kippti þessu í lag, þannig að eiginlega var búið að stytta upp þegar við vorum komin á brún Almannagjár ( Hakið ) og bjart yfir í norður átt, þangað sem við ætluðum.
Þórarinn leiðsögumaður sagði okkur frá af mikilli þekkingu, m.a. að Þingvellir og vatnið síga stöðugt og hratt niður. Hvenær þetta allt verður komið til Kína veit ég hins vegar ekki. Einnig fræddi hann okkur á því að Öxará var veitt þangað, sem hún nú er, af landsnámsmönnum, enda hefur þeim örugglega vantað vatn til að þynna mjöðinn, þegar þinghald var.
Var nú gengið niður Almannagjá undir forystu Þórarins leiðsögum. Þar fannst dularfull áletrun höggvin í steinvegginn, einnig ráku menn augu í óþekkan stein illa skorðaðan hátt uppi. Steinninn virðist vera að búa sig undir að detta niður í Almannagjá. Drekkingarhylur var skoðaður og fleira. Komu þá í leitirnar nokkrir Parísarfélagar, sem höfðu verið villuráfandi á svæðinu, m.a. vegna smá klósett miskilnings.
Gengið var niður að peningagjá ( Nikulásargjá ), þar sem rútan var þegar mætt til að sækja okkur. Við stoppuðum stutt við Peningagjá því að rútan hafði greinst með þrálátan olíu lekanda og var vísað af svæðinu, enda má olía ekki leka í þjóðgarðinn, sem er ígildi heilagrar jarðar.
Var nú ekið í loftinu að þjónustumiðstöðinni. Þar var snætt úti, setið á blautum bekkjum og voru ýmiss ráð notuð til þess að fólk yrði ekki rassblautt. Allir voru orðnir banhungraðir. Enda liðnar nokkrar klst frá morgunmat. Melting Parísarfólks virðist vera nokkuð góð og öflug !
Var nú lagt af stað í norður átt frá Þingvöllum á vit öræfa og óbyggða. Lausleg könnun meðal Parísarfélaga sýndi að margir höfðu ekki ekið Kaldadal, svo að mikil eftirvænting var í hópnum.
Gerðist nú fátt merkilegt, en landslagið varð stöðugt hrjóstrugra og eyðilegra. Rútan stoppaði svo við grjótvörðu, sem kölluð var Beinakerling og er þar hæsti punktur á Kaldadal. Þar var stafalogn og hiti.
Þar tók glaðbeitti bílstjórinn á gula bolnum hópmyndir af fólkinu á alls konar myndavélar í eigu Parísarfólks. Þarna var farið að sjást til jökla og sáust alls konar falleg litbrigði í jöklum og fjöllum.
Þarna hittum við erlenda ferðamenn í nýtísku geimaldarrútu, en ekki fannst bílstjóranum okkar mikið til hennar koma, sagði hana algert drasl í samanburði við okkar kolakynntu rútu. Sagði hann rútuna vera límda saman og myndi hún hrynja eftir svona 3-4 hálendisferðir. Lagði nú sú límda af stað og okkar maður þeysti á eftir í æsilegum kappakstri. Gafst hann þó fljótlega upp, enda leiðinlegt að vera í rykmekkinum, sem sú límda þyrlaði upp. Þegar ekið var fram hjá jöklinum Ok virtist hann vera í felum eða er alveg bráðnaður, svo að við misstum af honum.
Nú var ekið út af Kaldadalsveginum og upp að Langjökli. Nokkrar sæmilega brattar brekkur eru á þeirri leið og sendi þá kolakynnta rútan okkar frá sér hrikalega svarta reykmekki, sem sagt er að hafi jafnvel komið fram á gervihnattamyndum og valdið titringi í nokkrum leyniþjónustum án þess þó að kallaðar væru út helgarvaktir.
Þarna sáum við risavaxna 8x8 jöklastrætóa, sem sjást sjaldan í miðborg Reykjavíkur. Gengið var frá efstu búðum og upp á jökulinn, teknar myndir og jökullinn rannsakaður. Fljótlega fór bílstjórinn að ókyrrast og þeytti skipsflautuna ótæpilega. Fólk snaraðist í skyndi ofan af jöklinum og var ekið, sem leið lá niður í Húsafell, þar sem fólk fékk sér bæði kaffi og ís og nýttu sér hjónasalerni, sem þar voru. Þarna var 18°C hiti að sögn einhvers. Rútan okkar var gædd þeim eiginleikum að neðsta þrepið í landgangnum fjaðraði og hefði fólk getað stungið sér til sunds ef rútan hefði stoppað á sundlaugarbarmi, sem hún gerði ekki. Birgir þór er mikill sjéntilmaður og stóð alltaf við landganginn þar sem stoppað var, og greip dömurnar þegar þær flugu úr neðsta þrepinu.
Eftir 45 mínútur þeytti bílstjórinn skipsflautuna og ekið var með hópinn niður að Barna og Hraunfossum, þar sem einn varð næstum þvi eftir. Áfram var ekið í Reykholt, þar sem fólk skoðaði sig um.
Var fullt af peningum í Snorralaug og sést á því að Snorri gamli hefur verið brautryðjandi í peningaþvætti.
Loks var komið á lokaáfanga ferðarinnar 10 mínutum eftir áætlaðan komutíma og telst það vera innan skekkjumarka. Lokaáfanginn var veitingastaðurinn á Láxárbökkum við þjóðveg 1. Þar var boðið upp á kjúklingapottrétt og lambapottrétt ásamt meðlæti og kökur og kaffi á eftir. Kom þá í ljós að glaðbeitti bílstjórinn í gula bolnum er með hláturmildari mönnum og hefði getað hlegið alla Parísarfélaga undir borðið léttilega.


Fólk var sammála um að kjúklingapottrétturinn hefði verið aldeilis frábær og vildi fólk fá uppskriftina, en hún fékkst ekki. Var mikið reynt til þess, fóru konur jafnvel fram í eldhús og grétu en kokkurinn gaf sig ekki. Viðmót starfsfólks var gott og fór vertinn fram í sal og spjallaði við fólk og var hin alþýðlegasti. Var þetta mjög ólíkt móttökum í Hestheimum í 10 ára afmælisferð Parísar í maí síðastliðnum. Sumir vakna enn upp við martraðir frá þeirri ferð, þar sem tóm matarílát spila stórt hlutverk.
Öll ferðin heppnaðist vel, þó var drykkja með minnsta móti. Aldursforsetinn hélt þó uppi stuði á milli þess að hann stundaði talningu á því hve margir sauðir væru í rútunni.
Af því að rútan var kolakynnt þá treysti glaðbeitti bílstjórinn í gula bolnum sér ekki til að keyra Hvalfjarðargöngin og var þess vegna ekinn allur Hvalfjörðurinn eins og hann lagði sig. Margir farþeganna höfðu einmitt ekið Hvalfjörðinn viku áður í annarri Parísarferð, en það kom ekki að sök.
Komið var til Höfuðborgarinnar og lent við Kirkjuna í Mjódd um kl. 21,30 að staðartíma og voru allir sáttir. Glaðbeitti bílstjórinn í gula bolnum og farastjórinn fróði stóðu við dyr rútunar og kvöddu alla með handabandi, þegar stigið var frá borði.

Félagsfundir

Félagsfundir eru haldnir fyrsta laugardag í mánuði kl: 11:30 á Kringlukrá, hliðarsal.

Gönguhópar

Gönguhópur  alla föstudaga kl. 11:30 hittist við bílastæðið við Vífilsstaðavatn. Kaffihús og spjall eftir gönguna í Golfklúbbi GKG við Vífilsstaðaveg í Garðabæ.

Gönguhópur öll þriðjudagskvöld kl: 16:30 frá Árbæjarlaug. Hópurinn hittist í anddyri Árbæjarlaugar.

Gönguhópur flesta sunnudaga kl: 13:30 hittist sunnan við Hallgrímskirkju.

Ferðahópur fer 1x í mánuði í lengri göngur sem kynntar eru á félagsfundum.

Spjallfundir

Spjallfundir eru kl 18:00-21:00  öll miðvikudagskvöld í Gamla Kaffihúsinu Drafnarfelli

Spjallfundir eru í Perlunni á mánudögum kl. 15:30-17:30 

Morgunverðar-spjallfundir eru í IKEA fimmtudaga kl. 10:00-11:30

Þú ert hér:   HeimEldri fréttir og tilkynningarFerðasaga frá rútuferð - Langjökull - 10. ágúst, 2013
Paris.is á Facebook!